Laugavegur 25
101 Reykjavík
Iceland
info@thoka.is

Tel: (+354) 615-1834

Vefsíðugerð og vefhönnun: Dagný Lilja & Lou Jonker

UTANÍ

Ragnar Jónasson

16.ágúst - 14.september 2014Þoka kynnir með ánægju einkasýningu Ragnars Jónassonar, UTANÍ, sem samanstendur af tilraunakenndum málverkum.

Verkin eru í eðli sínu málverk en þó án hins hefðbundna undirlags og aðferðar. Það er miðillinn sjálfur, málningin, sem er í forgrunni en hún stendur ein og sér í stað þess að vera borin á flöt. Í sumum verkanna hefur málningunni verið ofið um þunnan vír og sjálfa sig en í öðrum hefur hún verið mótuð svo hún minnir helst á fljótandi skúlptúr. Ákveðin óvissa fólst í gerð verkanna þar sem þau voru unnin aftanfrá; fremsta lagið kom fyrst og aftari grunnlögin síðast. Málningin var því að nokkru leyti óheft þó strokum, formum og henni sjálfri hafi verið stjórnað af listamanninum. Fullkomið vald yfir útkomunni féll þó úr höndum Ragnars þar sem hann beitti öfugri aðferð við gerð verkanna.

Gjörningurinn við sköpunina á verkunum og afleiðingar hans hafa meira vægi í þessari sýningu en fullstýrð útkoma myndar á fleti. Sköpunin felst meðal annars í endurtekningu eins og sjá má í slöngulaga verkunum. Það er því eitthvað sefjandi við verk Ragnars þar sem endurtekning myndar ferli í tíma sem skilur eftir sig ummerki líkt og árhringir í trjábol. Þar sem augun fylgja skynörvandi litunum í slöngulaga verkunum gæti opinn hugur jafnvel komist á annað vitundarstig og verið sjálfur kominn inn í litrík ormagöng. Hugurinn fer í ferðalag sem byrjar utan á en endar innan í verkinu.

Þeir sem kalla sig shaman eiga að hafa þá getu að komast á æðra vitundarstig þar sem þeir ná að eiga í samskiptum við andaheiminn og beina þaðan yfirnáttúrulegri orku yfir í hinn raunverulega heim. Það má því segja að vangaveltur í kringum sýningu Ragnars gætu átt nokkuð sammerkt með trúarathöfnum og töfrabrögðum eða shamanisma frumstæðra ættbálka.

Ragnar Jónasson (f. 1974) býr og starfar í Glasgow, Skotlandi. Hann útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2004 og stundaði framhaldsnám í Glasgow School of Art þar sem hann útskrifaðist með MA gráðu í myndlist árið 2008. Hann hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga í hér á landi og víðs vegar erlendis.