Laugavegur 25
101 Reykjavík
Iceland
info@thoka.is

Tel: (+354) 615-1834

Vefsíðugerð og vefhönnun: Dagný Lilja & Lou Jonker

Dagar undrabarnsins

eru á enda

Rakel McMahon & Bergþóra Snæbjörnsdóttir

11.janúar - 16.febrúar 2014

Hlaða niður í PDF formiÞOKA kynnir með mikilli ánægju fyrstu sýningu ársins Dagar undrabarnsins eru á enda.

Myndlistakonan Rakel McMahon og ljóðskáldið Bergþóra Snæbjörnsdóttir hafa unnið saman undir nafninu Wunderkind síðan árið 2011. Þá hófust vangaveltur þeirra um tilurð og tilveru undrabarna og áhrif á persónueiginleika þeirra að alast upp sem slík.

Það er einkennilegt að hugsa til þess að sum börn fæðast með undraverða hæfileika framyfir aðra og mynda með sér kunnáttu á við fullorðna á ákveðnum sviðum mjög ung að aldri. Þessir hæfileikar eru meðfæddir en vegna ákveðinnar pressu frá samfélagi samtímans að skara fram úr hafa margir foreldrar reynt að hafa áhrif á mótun barnsins er það er enn í móðurkviði. Það gera þeir meðal annars með því að spila fyrir fóstrið klassíska tónlist eða lesa fyrir það þyngri bókmenntir. Með því vonast foreldrarnir til að eignast sín eigin undrabörn.

Orðið “prodigy” kemur af latneska orðinu “prodigium” sem þýðir meðal annars undur eða furðuverk. Önnur skilgreining á orðinu er fyrirboði einhvers ills en einnig skrímsli sem brýtur upp reglur náttúrunnar. Fyrr á öldum voru sum undrabörn talin andsetin og að mati Aristótelesar gat enginn talist snillingur án þess að á sama tíma teljast ögn brjálaður.

Sýningin samanstendur af teikningum eftir Rakel og textaverkum eftir Bergþóru. Með verkum sínum kanna þær samfélagið út frá sjónarhóli einstaklingsins, einveru innan þess og fáránleika. Þær skoða einnig flökt milli einkalífs og gægjuþarfar, hrifningar og blætis, minnis og fortíðarþrár. í verkunum er því leitast við að draga fram þverstæðurnar í mannlegu ástandi.

Rakel og Bergþóra hafa átt í samtali í gegnum teikningar og texta og varð útkoman gjörningar sem þær hafa sýnt í Reykjavík, Berlín og Helsinki. Sýningin í ÞOKU er loka þátturinn í þessu verkefni og verður þetta í fyrsta sinn sem teikningarnar og textarnir eru settir fram í sýningarformi.

Rakel McMahon (f. 1983) býr og starfar á Íslandi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2008. Árið 2009 útskrifaðist hún með MA gráðu í kynjafræði frá Háskóla Íslands. Síðan hún útskrifaðist hefur Rakel tekið virkan þátt í listalífinu á Íslandi bæði með eigin sýningum og þáttöku í menningartengdum viðburðum. Verk hennar hafa verið sýnd á Íslandi og víða erlendis og af stöðum er hægt að nefna Kaupmannahöfn, Edinborg og Varsjá. Rakel hefur komið nálægt rekstri á nokkrum listamannareknum sýningarrýmum en hún er ein af stofnendum Gallerí Klósett. Núna situr hún í stjórn Nýlistasafnsins.

Bergþóra Snæbjörnsdóttir (f. 1985) er ljóðskáld og gjörningalistakona búsett í Reykjavík og Berlín. Hún gaf út sitt fyrsta ljóðasafn, Daloon dagar, í nóvember 2011. Hún er ein af stofnendum útgáfunar ÚTÚR sem miðar að því að búa til opinn útgáfuvettvang á Íslandi. Hún er með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og BA gráðu í skapandi skrifum frá sömu stofnun. Bergþóra hefur skipulagt og tekið þátt í fjölmörgum upplestrum og listviðburðum og má þar nefna Junge Lyrik Aus Island/Lettrétage Literaturhaus (2012), Detour von Útúr /Altez Finanzamt (2012), International Poetry Festival/NÝLÓ (2011). Nú vinnur hún í þriðja verki sínu sem er samansafn af prósa ljóðum og verður það gefið út árið 2014.