Laugavegur 25
101 Reykjavík
Iceland
info@thoka.is

Tel: (+354) 615-1834

Vefsíðugerð og vefhönnun: Dagný Lilja & Lou Jonker

Elsku pappi

Davíð Örn Halldórsson

26.október - 29.nóvember 2013

Hlaða niður í PDF formiHráleiki og fínleiki takast á í sýningu Davíðs Arnar Halldórssonar sem fengið hefur heitið Elsku pappi.

Eins og nafnið gefur til kynna er pappi undirstaðan í verkunum á sýningunni. Hann er ýmist grófur eða fínn, fundinn eða keyptur og mis virðulegur. Með kraftmiklu og litríku stílbragði sínu hefur Davíð gefið grófu iðnaðarlegu undirlagi nýjan og fagurfræðilegan tilgang. Hefðbundin póstkort sem skortir sjarma og lit fá andlitsliftingu en með því að nota eðlisávísun sína glæðir Davíð þau lífi. Úr því koma einkennandi form og litir sem eiga sér stað í líflegum hugarheimi listamannsins.

Hluti af sýningunni eru teikningar sem Davíð vann fyrst í vikulangri vinnulotu fyrir Drake Hotel í Toronto. Þar veitti hann sér frelsi til að vinna þær hratt og í óðagoti sem birtist í tilviljunarkenndum teikningum. Hann fylgdi þeim svo eftir með mánaðalangri yfirsetu þar sem meðvituð, fínleg og vandvirk vinnubrögð tóku við.

Margar af fyrri sýningum Davíðs hafa einkennst af því að hann teygir efni málverksins út fyrir ramma verksins sjálfs með því að mála á veggi og gólf. Húsið sem hýsir verkin verður því að striga hans. Í þessari sýningu er húsið sett í hlutverk rammans bæði í huglægum og bókstaflegum skilningi.

Með sýningunni er verið að spyrja ýmissa spurninga og velt vöngum yfir verðugleika efnis og undirlags. Af hverju berum við meiri virðingu fyrir einu efni en öðru? Hvað þykir fullkomið og hvað má bæta? Hvað má “krydda”? Er “kryddið” réttlætanlegt? Hvað er hæft yfir sófann? Mörg svör geta verið við þessum spurningum og eru áhorfendur hvattir til að hafa þær í huga.

Davíð Örn Halldórsson (f. 1976) býr og starfar í Reykjavík. Davíð hefur mestmegnis unnið við málverk síðan hann útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002. Hann hefur unnið með óhefðbundnar málunaraðferðir; málað og sprayað með mismunandi málningu á fundna hluti. Fyrri verk Davíðs Arnar hafa oft samanstaðið af máluðum innsetningum, máluðum fundnum húsgögnum, gólfum, loftum og veggjum.
Verk Davíðs Arnar byggjast yfirleitt á atburðum úr hversdagslífinu. Þau eru persónuleg úrvinnsla úr umhverfi hans sem hann varpar fram í myndmáli sem vísar í teiknimyndir, graffiti list, Pop list og vestræna listasögu. Bakgrunnur Davíðs Arnar í grafík er einnig sjáanlegur í verkum hans sem efnislegur grunnur sem hann byggir list sína á.
Davíð Örn hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á Íslandi og víða erlendis. Hann hlaut nýverið hin virta Carnegie Art Award styrk í flokki ungra listamanna.

Listamaðurinn vill þakka sérstaklega:

Arnar Þór Halldórsson
Guðmundur Jónsson
Halldór Sigurðsson
Helgi Már Kristinsson
Jón Pálmar Sigurðsson
Katharina Hauptmann
Sigurlaug Brynjólfsdóttir