Laugavegur 25
101 Reykjavík
Iceland
info@thoka.is

Tel: (+354) 615-1834

Vefsíðugerð og vefhönnun: Dagný Lilja & Lou Jonker

Hlandvættir

Guðmundur Thoroddsen

5.júlí - 9.ágúst 2012

Hlaða niður í PDF formiKarlar og hversdagsleg afrek þeirra í gegnum aldirnar birtast í sýningu Guðmundar. Spurningunni um hvernig sumir karlmenn geta verið karlmannlegri en aðrir karlmenn er varpað fram og þar er vitnað í hina svokölluðu pissukeppni þar sem menn upphefja karlmennsku sína og etja kappi hvor við annan á þeim grundvelli. Skegg og hárprýði stoltra herramannanna eru í forgrunni og andar hlandvættanna þyngja eða létta andrúmsloft sýningar- rýmisins, eftir því hvernig á þeim liggur.

Sýningarrýmið minnir að einhverju leyti á inngöngu í fornt grafhýsi. Útskorin viðarhöfuð tveggja karla standa hvor í sýnu horni líkt og verndarar rýmisins. Í miðju rýminu stendur lokaður bikar úr hrossataði og í kringum hann standa fjórir útskornir viðarkarlar sem allir pissa í áttina að honum.

Á veggjunum eru blekteikningar á pappír af samskonar karlmönnum, eða hlandvættum. Teikningarnar eru unnar á þann hátt að vatnskenndar blekstrokur blæða um pappírinn og mynda þar af leiðandi mjúka andstæðu við grófu viðarskúlptúrana.

Guðmundur Thoroddsen (f. 1980) lauk BFA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og stundaði nám í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands. Hann stundaði framhaldsnám í School of Visual Arts í New York og útskrifaðist þaðan með MFA gráðu í myndlist árið 2011. Hann hefur haldið einkasýningar bæði hér á landi og í New York og einnig verið hluti af samsýningum á báðum stöðum. Síðasta einkasýning hans bar nafnið Father´s Father og fór fram í Asya Geisberg Gallery í New York í janúar á þessu ári og fékk hún lof gagnrýnenda.