Laugavegur 25
101 Reykjavík
Iceland
info@thoka.is

Tel: (+354) 615-1834

Vefsíðugerð og vefhönnun: Dagný Lilja & Lou Jonker

Glit

JÓHANNA HELGA ÞORKELSDÓTTIR

12.apríl - 17.maí 2014

Hlaða niður í PDF formiTilraunir með samspil ljóss og rýmis hafa verið Jóhönnu Helgu Þorkelsdóttur hugleikið viðfangsefni og heldur hún þeim tilraunum áfram í einkasýningu sinni, Glit.

Jóhanna hefur áhuga á náttúrulegri fegurð, samræmi og heilandi eiginleikum í umhverfinu og er meðvituð um hvernig áhrif þessara þátta koma fram í hugum fólks. Undir það fellur sólarljósið en það er alltaf á leiðinni eitthvert og stoppar stutt við á hverjum stað er það teiknar sér leið í gegnum tímann. Listakonan tekur tengsl okkar við ljós og náttúru til skoðunar en einnig reynslu okkar af náttúrinni og miðlar hún þeirri athugun með verkum sínum.

Það sem einkennir þessa sýningu er íhugun á sambandi sólarljóss við manngerð rými. Geislar sólarinnar ferðast um herbergi og mynda síbreytileg form sem ummyndast eftir gangi sólarinnar og skilja eftir sig ummerki um veru sína í rými. En hvers væntum við þegar við göngum inn í glugga- og ljóslaus rými?

Sýningin samanstendur af ljós innsetningu þar sem margir fletir gallerísins hafa verið gerðir að einum stórum skjá. Sýndarsólarljós ferðast um í rýminu líkt og inn um glugga. Með því að líkja eftir sólarljósinu er listakonan að gera tilraun til að njóta þess lengur. Hún leitast við að virkja næma undirmeðvitund áhorfandans og hafa áhrif á væntingar hans, sem þar af leiðandi opnar mögulega fyrir óljósum minningum og hugrenningartengslum.

Jóhanna Helga Þorkelsdóttir (f. 1978) hefur undanfarin ár fengist við ljós og náttúrutengdar innsetningar þar sem sýndar-náttúra er þungamiðja. Innsetningarnar taka jafnan mið af umhverfinu og leikið er með skynjun áhorfandans á rýmið. Jóhanna útskrifaðist með MFA-gráðu frá The School of the Art Institute of Chicago vorið 2007. Áður hafði hún lokið BA prófi frá Listaháskóla Íslands 2003. Jóhanna hefur ma sýnt í Sjónlistamiðstöðinni á Akureyri, Listasafni ASÍ og Nýlistasafninu.

www.johannahelga.com

Video verkið er unnið í samstarfi við Henrik Linnet.

Listakonan vil þakka sérstaklega Hildi Kolbrúnu Andrésdóttur.

ÞOKA þakkar Myndlistarsjóði fyrir framlag til gerðar sýningarinnar.