Laugavegur 25
101 Reykjavík
Iceland
info@thoka.is

Tel: (+354) 615-1834

Vefsíðugerð og vefhönnun: Dagný Lilja & Lou Jonker

Gráskali

Curver Thoroddsen

20.september - 19.október 2014Curver Thoroddsen er með síðustu sýninguna í núverandi rými ÞOKU og er róf gráskalans meðal viðfangsefna.

Curver sýnir vídeógjörning sem hann vann sérstaklega fyrir þessa sýningu og tók upp í galleríinu. Á húmorískan, einfaldan og einlægan hátt leikur hann sér með gráskalann og andstæða póla hans, svartan og hvítan, nema að hann gerir það í lit.

Gjörningurinn, sem tekinn var upp í einni langri töku, felst í endurtekningu á þeirri athöfn að klæða sig og afklæðast fötum sem bera mismunandi tóna gráskalans. Grár er hlutlaus málamiðlun milli tveggja öfga og hefur oft a tímum líflausa, dapra og leiðingjarna merkingu. Grár og drungalegur veruleiki er síðri en lífið í lit, eins og Paul Simon orti “Everything looks worse in black and white”.

Með það í huga er hægt að velta því fyrir sér hvað litir, eða ó-litir, geta sagt um persónuleika og líðan fólks eða hvaða tilfinningar litir kunna að vekja. Er munur á því að sjá listamanninn klæddan í ákveðnum tónum gráskalans? Verður tilfinningin jákvæðari eða neikvæðari eftir því hvar í rófinu hann er?

Curver Thoroddsen (f. 1976) býr og starfar í Reykjavík. Hann útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2000 og lauk MFA námi frá School of Visual Arts í New York árið 2009. Hann hefur unnið í ýmsa miðla eins og vídeó, innsetningar og gjörninga, oft út frá kenningum vennslalistar, þar sem hann hefur skoðað hugmyndir um sjálfið, dægurmenningu og samfélagið. Raunveruleikinn eins og hann birtist okkur flestum tekur á sig aðra mynd í samhengi myndlistar og hefur Curver unnið með það þema í mörgum verka sinna. Má þar meðal annars nefna þegar hann breytti Nýlistasafninu í fjölskyldu- og skemmtigarð, hélt skransölu innan veggja Listasafns Íslands og seldi lundapizzur í hinum afskekkta Bjargartangavita. Curver hefur einnig verið áberandi á sviði tónlistar ekki síst undanfarin ár með hljómsveitinni Ghostigital.